Hóll hentar vel fyrir viðburði af öllu tagi. Húsið eru rúmir 650 fm og er öll aðstaða til fyrirmyndar. Það eru 2 rými sem hægt er að nýta sem veislusali eða viðburðarrými. Matsalurinn er rúmgóður og er hægt að færa til sófa til að hafa meira rými fyrir sitjandi veislu. Einnig er hægt að setja upp auka borð í matsalinn til að stækka hann. Skemman er 75 fm rými sem hægt er að gera að allskonar viðburðarrými, það er hægt að færa allt til og gera rýmið að sínu eins og hentar hverjum og einum.

Brúðkaup

Hóll er frábær vettvangur fyrir rómantískt sveitabrúðkaup. Hægt er að aðlaga húsið að þörfum hvers og eins. Í júní 2023 var fyrsta brúðkaupið eftir breytingar og tókst það mjög vel.

Hér er ummæli frá Eiríku Ösp sem gifti sig á Hóli, sjá má myndir úr brúðkaupinu hér að neðan.

Hóll er algjör perla – Af öllum þeim ákvörðunum sem við tókum fyrir brúðkaupið okkar, var sú að hafa það á Hóli sú allra besta.

Við leigðum Hól frá fimmtudegi til sunnudags, sem gerði brúðkaupshelgina alveg extra sérstaka; gestirnir okkar fengu gott tækifæri til að eyða gæðastundum saman og kynnast vel. Frá því að vakna á morgnana við ilminn úr eldhúsinu þar sem vinir og fjölskylda elduðu saman morgunmat, sitjandi úti í sólinni á pallinum að sötra morgunkaffið í góðu spjalli, að fara saman í göngutúra og fjallgöngur í nágrenninu, í grillveislurnar á kvöldin, leikina úti á grasi og kvöldstundirnar í pottinum – ég gæti ekki hugsað mér betri leið til að koma ástvinum saman til að búa til fallegar minningar. Allir lögðu hönd á plóg í brúðkaupsundirnbúningnum og spiluðu stórt hlutverk á þessum fullkomna degi, sem var okkur ótrúlega dýrmætt. Staðsetningin í botninum á Siglufirði er frábær; nógu langt utan bæjar til að hafa frið og næði, en nógu nálægt bænum til að hafa allt til alls ef eitthvað vantar. Það var frábært að vinna með Gulla og teyminu hans. Hann var allur að vilja gerður til að hjálpa okkur að gera daginn ógleymanlegan og það var ómetanlegt að finna fyrir stuðningnum frá þeim. Það er augjlóst í öllum krókum og kimum að mikið er lagt í gæðin á Hóli. Standardinn er hár og þar er allt til alls fyrir bæði notalegheit og veisluhöld.

Ég er ennþá að reyna að finna réttu orðin til að lýsa því hvað brúðkaupshelgin á Hóli var töfrandi, algjörlega draumi líkast. Að geta haft athöfnina, matinn og veisluna á sama staðnum var tær snilld, og það besta er að enginn þurfti að ferðast – það gerist ekki þægilegra. Meira að segja myndatakan í glæsilega landslaginu var nánast alveg uppvið Hól. Athöfnin var úti í forgarðinum við laugina, maturinn í matsalnum og veislan í skemmunni, en við nýttum svæðið fyrir utan skemmuna alveg jafn mikið fram á rauða nótt. Til að setja punktinn yfir i-ið enduðu veisluhöldin með slökun í lauginni við sólsetrið og sólarupprásina. Fjörðurinn spegilsléttur og fjöllin ljómandi gyllt. Ég gæti ekki hugsað mér fallegri stað til að fagna ástinni heldur en Hól á Siglufirði.